Dans- og kvikmyndagerðarkonan Helena Jónsdóttir hefur verið brautryðjandi í dansmyndagerð á Íslandi og eftir hana liggja fjölmargar dansmyndir. Hún hefur getið sér góðan orðstír sem danshöfundur og kvikmyndagerðarkona, bæði hérlendis og erlendis, og margsinnis verið verðlaunuð fyrir list sína. Helena missti eiginmann sinn, Þorvald Þorsteinsson, árið 2013 og sorgarferlið hefur verið langt og strangt. Hún segir listina hafa verið sína besta sáluhjálp og hvetur fólk til að temja sér skapandi hugsun. Ástin kom óvænt inn í líf Helenu á ný eftir andlát Þorvaldar þegar hún kynntist Marcel, belgískum vídeólistamanni, sem hún segir gera sér grein fyrir að sé í sambandi bæði með henni og Þorvaldi. Enda hafi Marcel verið hennar hægri hönd í að halda arfleifð Þorvaldar á lofti.